Ísak Bergmann var gestur hlaðvarpsþáttarins Chat After Dark, áður Chess After Dark. Þar fór hann yfir víðan völl og ræddi meðal annars hugarfar sitt inn á vellinum. Hann var að ræða hugarfar leikmanna sem hann hefði spilað við og barst talið að jafnaldra hans, Jude Bellingham.
Sá leikur með enska landsliðsins og Borussia Dortmund en þeir skiptust á treyjum eftir leik FCK og Dortmund í Meistaradeild Evrópu.
„Bellingham, að horfa á hann með enska landsliðinu. Finnst hann með rosalega gott hugarfar og held að hann verði fyrirliði Englands einn daginn. Hann virðist mjög einbeittur á að vera góður fótboltamaður og virðist ekki spá mikið í að vera í merkjafötum og pósta einhverju á Instagram, bara einbeittur. Mér líkar mjög vel við hann.“
„Inn á vellinum vil ég bara vinna og geri allt til þess að reyna að vinna. Finnst ég aðlagast vel þegar ég spila á hærra getustigi; á góðum grasvelli og það er hátt tempó,“ sagði Ísak Bergmann þegar hann var spurður út í eigið hugarfar inn á vellinum.
Hann hélt svo áfram: „Finnst erfiðara þegar það eru minni leikir, bikarleikur upp í sveit í Danmörku til dæmis. Þá finnst mér ég eiga að vera betri en þessir leikmenn en það hægist oft á leiknum. Er þannig leikmaður að ég hugsa hraðar en ég hleyp. Það hentar mér að fara á hærra getustig og það gerist allt miklu hraðar.“
Ísak Bergmann hefur æfingar með FCK skömmu eftir áramót en danska úrvalsdeildin fer ekki af stað á nýjan leik fyrr en 17. febrúar næstkomandi. Viðtalið við Ísak Bergmann má hlusta á hér að neðan.