Þessi lið mættust í eftirminnilegu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn í vor og þau tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar þau áttust við á Sauðárkróki í gær.
Hjálmar Stefánsson kom Val þremur stigum yfir, 78-81, þegar hann setti niður tvö vítaskot. Tindastóll fór í sókn en þriggja stiga skot Antonios Woods geigaði. Frank Aron Booker tók frákastið og gaf boltann á Bertone sem var rétt fyrir innan miðju.
Hann kastaði boltanum fram og sendingin var augljóslega ætluð Callum Lawson en boltinn endaði þess í stað ofan í körfunni. Staðan því orðin 78-84 og sigur Vals í höfn.
Stefán Árni Pálsson, sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport, áttaði sig ekki alveg á hvað hafði gerst fyrr en eftir nokkrar sekúndur.
„Hvað gerðist þarna? Boltinn fór bara ofan í þarna. Ég sá það ekki,“ sagði Stefán Árni forviða.
Körfuna ótrúlegu sem Bertone skoraði má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Valur er á toppi Subway-deildarinnar með átján stig. Tindastóll er í 6. sætinu með tólf stig.