Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir Kringvarps Færeyja frá stjórnarskiptunum í Þórshöfn í dag. Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarflokksins, ásamt formönnum samstarfsflokkanna, þeim Ruth Vang frá Framsókn og Høgna Hoydal frá Þjóðveldi, kynntu stjórnarsáttmálann í morgun. Ruth verður fjármálaráðherra og Høgni utanríkis- og atvinnumálaráðherra í nýrri landsstjórn sem telst vera miðju- og vinstri stjórn.
Síðar um morguninn, á fundi Lögþingsins, var Aksel kjörinn lögmaður Færeyja en þetta er í annað sinn sem hann gegnir þessu embætti.
Eftir hádegi mættu ráðherrar nýju stjórnarinnar, klæddir hátíðarbúningi, í Þinganes, aðsetur landsstjórnarinnar, þar sem fráfarandi lögmaður, Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, afhenti þeim formlega lyklavöldin.

Upphaflega hugðust þau Aksel og Ruth mynda stjórn með Bárði og Sambandsflokknum en þær viðræður fóru út um þúfur vegna ágreinings um hvort stíga ætti skref til sjálfstæðis með því að gera Færeyinga óháðari fjárhagsstuðningi frá Dönum.
Niðurstaða nýju samstarfsflokkanna var að ríkisframlögin frá Danmörku skyldu minnkuð um 25 milljónir danskra króna á ári, um 500 milljónir íslenskra króna, eða um samtals tvo milljarða íslenskra króna í áföngum á næstu fjórum árum. Það eru um 15 prósent af núverandi stuðningi.
Þá náðu flokkarnir samkomulagi um það að hækka gjöld á sjávarútveg og fiskeldi umtalsvert samhliða því sem sveitarfélög fá hlutdeild í hærri atvinnuvegasköttum, að því er fram kom í viðtali við Ruth Vang í Norðlýsið. Fjárhæðir hafa þó ekki verið nefndar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: