Enski boltinn

Ton­ey kærður fyrir 30 brot til við­bótar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ivan Toney er í vandræðum.
Ivan Toney er í vandræðum. Jacques Feeney/Getty Images

Ivan Toney, framherji Brentford í ensku úrvalsdeildinni, var á dögunum kærður fyrir fjölda brota á veðmálareglum deildarinnar. Nú hafa 30 brot bæst við kæruna.

Í aðdraganda HM í Katar var mikið rætt og ritað um Ivan Toney og möguleikann á því að hann yrði valinn í enska landsliðshópinn sem myndi fara. Á endanum var hann ekki valinn og skömmu síðar var hann kærður af enska knattspyrnusambandinu.

Hinn 26 ára gamli Toney var ákærður fyrir að hafa brotið veðmálareglur sambandsins alls 232 sinnum á undanförnum árum. Nú hafa 30 brot til viðbótar bæst við ákæruna og er því um alls 262 brot að ræða, samkvæmt kærunni.

„Ivan hefur til miðvikudagsins 4. janúar 2023 til að svara,“ segir í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu.

Toney er sannkallaður lykilmaður hjá Brentford og hefur skorað 10 mörk og gefið 2 stoðsendingar í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér langt bann.

Því til sönnunar má benda á tíu vikna bannið sem Kieran Trippier fékk fyrir að veita upplýsingar um vistaskipti sín frá Tottenham Hotspur til Atlético Madríd í júlí 2019. Þá fékk Trippier sekt upp á 70 þúsund pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×