Innlent

Öku­maður til­kynntur til barna­verndar

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Þónokkrir voru stöðvaðir í umferðinni í dag. 
Þónokkrir voru stöðvaðir í umferðinni í dag.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag. Þónokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi, enn aðrir sviptir ökuréttindum og var eitt mál borið á borð barnaverndar. Þá olli mannlaus bifreið árekstri við Smáralind.

Þessu er greint frá í dagbók lögreglu.

Um klukkan hálf tvö var lögreglu tilkynnt um bílslys við Smáralind. Þar hafði mannlaus bifreið runnið á aðra en til allar lukku urðu litlar skemmdir á bifreiðunum.

Rétt fyrir klukkan fjögur í dag barst lögreglu tilkynning um bifreið á leið um Miklubraut. Það sem þótti tilkynningarvert var að barn var sagt laust í bílnum.

Þegar lögregla stöðvaði bifreiðina á að hafa orðið ljóst að börn í bílnum væru ekki fest í viðeigandi öryggisbúnað. Einnig hafi of margir verið í bifreiðinni. Í ofanálag hafi ökumaðurinn ekki haft gild ökuréttindi og var málið tilkynnt til barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×