Handbolti

„Ef einhver á þetta skilið er það meistari Geir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Sigursteins Arndal hafa unnið átta leiki í röð í deild og bikar.
Strákarnir hans Sigursteins Arndal hafa unnið átta leiki í röð í deild og bikar. vísir/hulda margrét

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var kátur eftir sigurinn á Aftureldingu, 38-33, í kvöld. Fyrir leikinn var mikil athöfn þegar Geir Hallsteinsson var heiðraður fyrir áratuga framlag til FH og leikmenn liðsins heiðruðu hann líka á sinn hátt, með frábærum leik og góðum sigri.

„Það var ætlunin því ef einhver á þetta skilið er það meistari Geir,“ sagði Sigursteinn í samtali við Vísi.

Honum fannst FH-ingar koma til leiks af miklum krafti og gefa tóninn strax í upphafi.

„Ég var ánægður með kraftinn sem við komum með inn í leikinn. Við áttum góða kafla í vörninni sem bjuggu til tækifæri til að keyra vel á þá. Svo gekk sóknarleikurinn mjög vel og það var mjög ánægjulegt,“ sagði Sigursteinn.

Í fyrri hálfleik bar mest á Ásbirni Friðrikssyni en í þeim seinni fór Jóhannes Berg Andrason mikinn og skoraði þá átta af tíu mörkum sínum.

„Hann var frábær en hefur átt marga mjög góða leiki. Hann er ungur, gerir sín mistök en hann þarf bara að halda áfram að vinna vel á hverjum eins og hann er vanur að gera og þá fáum við vonandi fleiri svona leiki,“ sagði Sigursteinn.

FH hefur nú unnið sjö deildarleiki í röð og er fjórum stigum frá toppliði Vals. Aðspurður um markmið FH-inga tók Sigursteinn út úr klisjubankanum.

„Við horfum bara á næsta leik. Er það ekki ömurleg lumma? Við erum bara í því að reyna að bæta okkur viku frá viku og markmiðið er að gera það áfram. En við viljum að sjálfsögðu enda sem efst í deildinni. Það gefur auga leið,“ sagði Sigursteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×