Viðskipti innlent

Frá Fiski­fréttum og til Hjálpar­starfs kirkjunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Svavar Hávarðsson.
Svavar Hávarðsson. Aðsend

Svavar Hávarðsson hef­ur hafið störf sem fræðslu- og upp­lýs­inga­full­trúi Hjálp­ar­starfs kirkj­unn­ar. Svavar hefur starfað sem blaðamaður og ritstjóri frá árinu 2006.

Í tilkynningu kemur fram að Svavar muni meðal annars hafa með höndum ritstjórn og útgáfu fréttablaðs, upplýsingamiðlun og samskipti við fjölmiðla, umsjón með fræðslu og skipulagningu viðburða. 

Hann tekur við starfinu af Kristínu Ólafsdóttur sem hefur tekið við starfi verkefnastjóra erlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu.

„Sem blaðamaður í innlendum fréttum á Fréttablaðinu sinnti Svavar skrifum um fjölbreytt efni. Hann hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku árið 2011 fyrir fréttaflutning af mengun frá sorpbrennslum. Svavar söðlaði um árið 2017 og hefur starfað sem ritstjóri Fiskifrétta undanfarin fimm og hálft ár.

Svavar er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum; sat meðal annars í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands og í ritnefnd Stangaveiðifélags Reykjavíkur,“ segir um Svavar. 

Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun sem sinnir mannúðar- og hjálparstarfi í nafni þjóðkirkjunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×