Umfjöllun: ÍR - Þór Þ. 79-73 | Dísætur og dýrmætur sigur ÍR Sindri Sverrisson skrifar 24. nóvember 2022 21:48 Collin Pryor og félagar í liði ÍR unnu afar sætan sigur í kvöld. vísir/vilhelm Tvö neðstu lið Subway-deildar karla, ÍR og Þór Þ., áttust við í mikilvægum fallslag í Skógarselinu. ÍR-ingar höfðu betur, 79-73, eftir spennuleik og skildu Þórsara eftir á botni deildarinnar. Þórsarar voru fimm stigum yfir fyrir lokafjórðung leiksins en ÍR-ingar sýndu úr hverju þeir eru gerðir í lokin, dönsuðu dásamlega á línunni í villuvandræðum sínum, og innbyrtu að lokum sinn annan sigur á tímabilinu eftir fimm tapleiki í röð. Þór hafði öll tækifæri til að koma sér af botninum en nýtti þau ekki. Vissulega hamlaði liðinu mikið að Grikkinn Fotios Lampropoulos skyldi fara meiddur í kálfa af velli í fyrsta leikhluta en það var himinn og haf á milli frammistöðu Þórsara í kvöld og í sigrinum frækna gegn Keflvíkingum á mánudagskvöld - þeirra eina sigri það sem af er leiktíð. Taylor Johns lenti oft á vegg gegn Þórsurum í fyrri hálfleik en skoraði tuttugu stig í þeim seinni og endaði með 30 stig, auk þess að rífa til sín fráköst allan leikinn og enda með þrettán. Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 14 stig en byrjunarliðsmenn ÍR léku allir yfir 30 mínútur í leiknum og sáu um stigaskorunina að nánast öllu leyti. Fjórir þeirra voru komnir með fjórar villur hver í fjórða leikhluta en tókst öllum að klára leikinn og kreista fram sigur sem gæti mögulega skipt sköpum í lok leiktíðar. Hjá Þór fór Bandaríkjamaðurinn Vincent Shahid úr því að setja stoðsendingamet í efstu deild á Íslandi í síðasta leik í það að eiga tvær í kvöld og skora 18 stig. ÍR-ingum virtist takast frábærlega að kippa honum úr sambandi. Styrmir Snær Þrastarson var líka fjarri sínu besta í fyrri hálfleik en magnaður í þriðja leihluta og endaði með 23 stig og 14 fráköst, og Pablo Hernandez skoraði 14 stig. Grikkinn skildi eftir sig skarð ÍR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og nýttu sér einhvers konar byrjunarskjálfta í Þórsurum sem fóru illa með skotin sín. ÍR komst í 9-0 áður en Þór skoraði sína fyrstu körfu en eftir því sem leið á leikhlutann skellti Þórsvörnin hreinlega í lás og gestirnir unnu upp forskotið. Emil Karl Einarsson kom Þór yfir með fallegum þristi, skömmu eftir að hafa fiskað óíþróttamannslega villu á sinn gamla samherja Ragnar Örn Bragason, og Þórsarar voru 19-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Þórsarar misstu sem fyrr segir Lampropoulos af velli í fyrsta leikhluta vegna meiðsla. Það myndaði skarð fyrir skildi og sló samherja hans mögulega út af laginu því lykilmenn á borð við Shahid og sérstaklega Styrmi náðu sér alls ekki á strik í fyrri hálfleiknum. Ghetto Hooligans virtust ná til Styrmis en fengu það í bakið Þó það sé kannski ólíklegt þá virtust Ghetto Hooligans, stuðningsmenn ÍR, ná einhverju taki á Styrmi eftir að hann klúðraði auðveldri troðslu í öðrum leikhlutanum en hvorki hann né flestir aðrir fundu sig vel í sóknarleik Þórsara. Hernandez, Spánverjinn sem Þórsarar höfðu fengið falskt loforð KKÍ um að gæti spilað sem Íslendingur í vetur, dró vagninn fyrir þá með frábærum leik á báðum endum vallarins. ÍR-ingar þurftu að sama skapi að hafa mikið fyrir sínum stigum í öðrum leikhluta og eru frekar þunnskipaðir. Luciano Massarelli var reyndar á leikskýrslu í kvöld en meiddist á nýjan leik eftir að hafa aðeins spilað eina mínútu. Taylor Johns nýtti líkamlegan styrk sinn vel í vörninni og reif hvert frákastið af fætur öðru til sín en lenti oft á vegg í sóknarleiknum og fékk ekki nægan stuðning. Shahid minnkaði forskot ÍR í eitt stig með þriggja stiga körfu í lok fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var 36-35. Styrmir kom af fítonskrafti inn í þriðja leikhlutann, skoraði tíu stig í honum einum, og var alltaf mættur til að hirða lausan bolta. Köllin frá Ghetto Hooligans virtust hafa virkað eins og bensín á eld og smám saman náði Þór yfirhöndinni og var 55-50 yfir fyrir lokaleikhlutann. Enn mikið verk óunnið í Þorlákshöfn Þórsarar komust mest sjö stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta en þristar frá Johns og Hákoni Erni Hjálmarssyni með örstuttu millibili virtust slá Þórsara út af laginu. Ragnar Örn Bragason setti einnig niður þrist á mikilvægum tímapunkti, gegn sínum gömlu félögum, og kom ÍR í 72-67 á meðan að gestirnir hittu afar illa en þeir enduðu með aðeins 33% skotnýtingu úr opnum leik. Vonbrigði og örvænting Þórsara var augljós og auðvitað telja þeir sig alls ekki vera á réttum stað í deildinni, en leikurinn í kvöld bar þess merki að enn sé mjög mikið verk óunnið í Þorlákshöfn. Breiðhyltingar ættu hins vegar að eflast og hafa nú unnið tvo af fyrstu fjórum leikjum sínum í nýjum og glæsilegum heimkynnum, og eiga tækifæri á fyrsta útisigrinum þegar þeir sækja KR heim í öðrum afar mikilvægum leik í næstu viku. Lárus: Fannst við spila eins og það væri mikil pressa á okkur „Við hittum illa og deildum boltanum lítið. Við áttum níu stoðsendingar í öllum leiknum,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. „Mér fannst við vera allt of mikið að dripla boltanum, og lítið flæði í sókninni hjá okkur. Svo munaði mikið um að Fotios spilaði bara 4-5 mínútur. Hann hefur verið að glíma við kálfameiðsli sem við héldum að væru orðin góð en svo fór kálfinn aftur. Hann er auðvitað stór hluti af okkar sóknar- og varnarleik og mér fannst við aldrei ná einhverjum alvöru takti,“ sagði Lárus sem fékk besta svarið frá sínum mönnum í þriðja leikhlutanum, eftir hálfleiksræðuna: „Mér fannst við vera að spila aðeins of hægt þannig að við ætluðum að reyna að auka hraðann. Mér fannst við líka spila leikinn eins og það væri mikil pressa á okkur. Menn voru hikandi,“ sagði Lárus en Þórsarar köstuðu svo sigrinum frá sér í fjórða leikhluta: „Við vissum alltaf að þetta yrði hörkuleikur. Bæði lið eru í botnbaráttu, að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, svo við vissum alveg að ÍR myndi koma til baka. En okkur vantaði einhverja orku til að klára leikinn betur. Okkur langaði náttúrulega að tengja saman tvo góða leiki en þetta þýðir bara að við þurfum að vinna Njarðvík í næsta leiki,“ sagði Lárus. Subway-deild karla ÍR Þór Þorlákshöfn
Tvö neðstu lið Subway-deildar karla, ÍR og Þór Þ., áttust við í mikilvægum fallslag í Skógarselinu. ÍR-ingar höfðu betur, 79-73, eftir spennuleik og skildu Þórsara eftir á botni deildarinnar. Þórsarar voru fimm stigum yfir fyrir lokafjórðung leiksins en ÍR-ingar sýndu úr hverju þeir eru gerðir í lokin, dönsuðu dásamlega á línunni í villuvandræðum sínum, og innbyrtu að lokum sinn annan sigur á tímabilinu eftir fimm tapleiki í röð. Þór hafði öll tækifæri til að koma sér af botninum en nýtti þau ekki. Vissulega hamlaði liðinu mikið að Grikkinn Fotios Lampropoulos skyldi fara meiddur í kálfa af velli í fyrsta leikhluta en það var himinn og haf á milli frammistöðu Þórsara í kvöld og í sigrinum frækna gegn Keflvíkingum á mánudagskvöld - þeirra eina sigri það sem af er leiktíð. Taylor Johns lenti oft á vegg gegn Þórsurum í fyrri hálfleik en skoraði tuttugu stig í þeim seinni og endaði með 30 stig, auk þess að rífa til sín fráköst allan leikinn og enda með þrettán. Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 14 stig en byrjunarliðsmenn ÍR léku allir yfir 30 mínútur í leiknum og sáu um stigaskorunina að nánast öllu leyti. Fjórir þeirra voru komnir með fjórar villur hver í fjórða leikhluta en tókst öllum að klára leikinn og kreista fram sigur sem gæti mögulega skipt sköpum í lok leiktíðar. Hjá Þór fór Bandaríkjamaðurinn Vincent Shahid úr því að setja stoðsendingamet í efstu deild á Íslandi í síðasta leik í það að eiga tvær í kvöld og skora 18 stig. ÍR-ingum virtist takast frábærlega að kippa honum úr sambandi. Styrmir Snær Þrastarson var líka fjarri sínu besta í fyrri hálfleik en magnaður í þriðja leihluta og endaði með 23 stig og 14 fráköst, og Pablo Hernandez skoraði 14 stig. Grikkinn skildi eftir sig skarð ÍR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og nýttu sér einhvers konar byrjunarskjálfta í Þórsurum sem fóru illa með skotin sín. ÍR komst í 9-0 áður en Þór skoraði sína fyrstu körfu en eftir því sem leið á leikhlutann skellti Þórsvörnin hreinlega í lás og gestirnir unnu upp forskotið. Emil Karl Einarsson kom Þór yfir með fallegum þristi, skömmu eftir að hafa fiskað óíþróttamannslega villu á sinn gamla samherja Ragnar Örn Bragason, og Þórsarar voru 19-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Þórsarar misstu sem fyrr segir Lampropoulos af velli í fyrsta leikhluta vegna meiðsla. Það myndaði skarð fyrir skildi og sló samherja hans mögulega út af laginu því lykilmenn á borð við Shahid og sérstaklega Styrmi náðu sér alls ekki á strik í fyrri hálfleiknum. Ghetto Hooligans virtust ná til Styrmis en fengu það í bakið Þó það sé kannski ólíklegt þá virtust Ghetto Hooligans, stuðningsmenn ÍR, ná einhverju taki á Styrmi eftir að hann klúðraði auðveldri troðslu í öðrum leikhlutanum en hvorki hann né flestir aðrir fundu sig vel í sóknarleik Þórsara. Hernandez, Spánverjinn sem Þórsarar höfðu fengið falskt loforð KKÍ um að gæti spilað sem Íslendingur í vetur, dró vagninn fyrir þá með frábærum leik á báðum endum vallarins. ÍR-ingar þurftu að sama skapi að hafa mikið fyrir sínum stigum í öðrum leikhluta og eru frekar þunnskipaðir. Luciano Massarelli var reyndar á leikskýrslu í kvöld en meiddist á nýjan leik eftir að hafa aðeins spilað eina mínútu. Taylor Johns nýtti líkamlegan styrk sinn vel í vörninni og reif hvert frákastið af fætur öðru til sín en lenti oft á vegg í sóknarleiknum og fékk ekki nægan stuðning. Shahid minnkaði forskot ÍR í eitt stig með þriggja stiga körfu í lok fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var 36-35. Styrmir kom af fítonskrafti inn í þriðja leikhlutann, skoraði tíu stig í honum einum, og var alltaf mættur til að hirða lausan bolta. Köllin frá Ghetto Hooligans virtust hafa virkað eins og bensín á eld og smám saman náði Þór yfirhöndinni og var 55-50 yfir fyrir lokaleikhlutann. Enn mikið verk óunnið í Þorlákshöfn Þórsarar komust mest sjö stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta en þristar frá Johns og Hákoni Erni Hjálmarssyni með örstuttu millibili virtust slá Þórsara út af laginu. Ragnar Örn Bragason setti einnig niður þrist á mikilvægum tímapunkti, gegn sínum gömlu félögum, og kom ÍR í 72-67 á meðan að gestirnir hittu afar illa en þeir enduðu með aðeins 33% skotnýtingu úr opnum leik. Vonbrigði og örvænting Þórsara var augljós og auðvitað telja þeir sig alls ekki vera á réttum stað í deildinni, en leikurinn í kvöld bar þess merki að enn sé mjög mikið verk óunnið í Þorlákshöfn. Breiðhyltingar ættu hins vegar að eflast og hafa nú unnið tvo af fyrstu fjórum leikjum sínum í nýjum og glæsilegum heimkynnum, og eiga tækifæri á fyrsta útisigrinum þegar þeir sækja KR heim í öðrum afar mikilvægum leik í næstu viku. Lárus: Fannst við spila eins og það væri mikil pressa á okkur „Við hittum illa og deildum boltanum lítið. Við áttum níu stoðsendingar í öllum leiknum,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. „Mér fannst við vera allt of mikið að dripla boltanum, og lítið flæði í sókninni hjá okkur. Svo munaði mikið um að Fotios spilaði bara 4-5 mínútur. Hann hefur verið að glíma við kálfameiðsli sem við héldum að væru orðin góð en svo fór kálfinn aftur. Hann er auðvitað stór hluti af okkar sóknar- og varnarleik og mér fannst við aldrei ná einhverjum alvöru takti,“ sagði Lárus sem fékk besta svarið frá sínum mönnum í þriðja leikhlutanum, eftir hálfleiksræðuna: „Mér fannst við vera að spila aðeins of hægt þannig að við ætluðum að reyna að auka hraðann. Mér fannst við líka spila leikinn eins og það væri mikil pressa á okkur. Menn voru hikandi,“ sagði Lárus en Þórsarar köstuðu svo sigrinum frá sér í fjórða leikhluta: „Við vissum alltaf að þetta yrði hörkuleikur. Bæði lið eru í botnbaráttu, að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, svo við vissum alveg að ÍR myndi koma til baka. En okkur vantaði einhverja orku til að klára leikinn betur. Okkur langaði náttúrulega að tengja saman tvo góða leiki en þetta þýðir bara að við þurfum að vinna Njarðvík í næsta leiki,“ sagði Lárus.
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti