Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segir frá því í viðtali á Facebook-síðu KSÍ að markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson og kantmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson verði ekki með í seinni leik Íslands, sem annað hvort verður úrslitaleikur eða leikur um þriðja sæti mótsins.
Rúnar Alex, sem spilar í Tyrklandi, fer eftir leikinn við Litháen heim til Íslands vegna jarðarfarar. Arnar segir jafnframt að gert hafi verið samkomulag við þjálfara Jóns Dags hjá belgíska liðinu OH Leuven um að hann spili aðeins leikinn við Litháen.
Arnar ætlar sér sigur á mótinu og segir Ísland með betra lið en Litháen og hin tvö liðin; Eistland og Lettland.
„Þó að þetta sé vináttuleikjagluggi þá er þetta keppni og við erum mættir hingað til Litháen til að vinna leikinn á miðvikudaginn og komast í úrslit. Þetta er mót sem verið hefur hérna nánast í hundrað ár og er stórt fyrir þessar þjóðir, og við erum ánægðir og stoltir af að taka þátt. Við viljum að sjálfsögðu vinna,“ sagði Arnar sem að þessu sinni nýtur krafta Jóhanns Bergs Guðmundssonar og Sverris Inga Ingasonar sem ekki hafa spilað með landsliðinu undanfarið.
Íslenska landsliðið tapaði í síðustu viku leikjum við Suður-Kóreu og Sádi-Arabíu, 1-0 í báðum tilvikum, en þar var um að ræða leiki þar sem langflestir þeirra sem spila með atvinnumannaliðum erlendis komu ekki til greina, þar sem leikirnir voru utan FIFA-landsleikjaglugga.