Handbolti

Jónatan: Getum ekki notað álagið sem afsökun

Dagur Lárusson skrifar
Jónatan var svekktur eftir leikinn gegn Mosfellingum í dag.
Jónatan var svekktur eftir leikinn gegn Mosfellingum í dag. Vísir/Vilhelm

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA, var að vonum ósáttur eftir tap síns liðs gegn Aftureldingu í Olís-deildinni í dag. Hann segir að liðið hafi ekki sýnt sitt rétta andlit í leiknum.

„Ég er auðvitað bara svekktur að liðið hafi ekki spilað betri leik, við sýndum ekki okkar rétta andlit,” byrjaði Jónatan á að segja.

„Við hefðum þurft að spila alveg toppleik til þess að vinna þetta lið á þeirra heimavelli, það er alveg ljóst, en við gerðum það svo sannarlega ekki,” hélt Jónatan áfram.

„Við vorum þremur mörkum undir í hálfleik og við vorum með ákveðna hluti sem við ætluðum að laga í seinni hálfleiknum, ákveðið leikplan sem síðan gekk bara alls ekki upp.”

Jónatan talaði um það fyrir leik að hann vildi sjá mikinn hraða hjá sínu liði þrátt fyrir mikið álag upp á síðkastið en hann vildi meina að hann hafi ekki séð það í þessum leik. Hann vildi þó ekki nota þetta álag sem afsökun.

„Nei, ég held ekki, við getum ekki notað álagið og Evrópuleikinn sem afsökun, það væri léleg afsökun. Við vissum að við værum að fara inn í þetta álag og það er einfaldlega oft betra að vera með svona marga leiki heldur en ekki þannig við ætlum ekki að nota það sem afsökun,” endaði Jónatan á að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×