Slagsmál brutust út í miðjum leik og enduðu með því að þrír leikmenn fengu rauða spjaldið.
Allt byrjaði þetta þegar Maya Gordon hjá LSU og Ramsey Davis hjá Ole Miss lentu saman eftir að hafa barist um boltann við hliðarlínuna.
Davis, sem er á þriðja ári, virtist grípa utan um Gordon sem er á síðasta ári. Í kjölfarið fóru hnefarnir á loft og þær slógust.
Dómari leiksins kom þá aðvífandi og reyndi að skilja þær í sundur en tókst ekki betur en svo að slagsmálin héldu áfram og fleiri blönduðu sér í þau.
Rammie Noel hjá LSU kom hlaupandi á svæðið og greip í hárið á Davis og togaði hana í jörðina.
Gordon sást grátandi á hliðarlínunni eftir að hlutirnir róuðust aftur. Davis, Gordon og Noel fengu allar rautt spjald. Það var komið fram í framlengingu þegar allt varð vitlaust.
Ole Miss vann leikinn 3-0 í vítakeppni og komst áfram í úrslitakeppni SEC. Liðið mætir South Carolina í næstu umferð.
Íslenska landsliðskonan Ída Marín Hermannsdóttir gekk til liðs við LSU í haust og er markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með sex mörk. Hún spilaði þó ekki í þessum leik.
A wild fight broke out in the Ole Miss-LSU women's soccer SEC Tournament first-round match. Three players were ejected. pic.twitter.com/q07yHhdjr2
— The Comeback (@thecomeback) October 30, 2022