Umræðan

Hvert er þitt framlag í loftlagspúkkið?

Kristján Rúnar Kristjánsson og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir skrifar

Sem stendur er ekki útlit fyrir að jarðarbúum takist að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins, að halda meðalhækkun hitastigs vel undir tveimur gráðum í lok aldarinnar. Á sama tíma hefur ekki verið skortur á álitum eða skoðunum á loftlagsmarkmiðum ríkisstjórnar Íslands; að þau séu óraunhæf og leiðin óljós. Nýjustu markmið stjórnvalda hljóða upp á 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands frá 2005 til 2030, en vinnu við að uppfæra aðgerðaráætlun í loftlagsmálum til samræmis er ólokið þrátt fyrir að tæpt ár sé síðan ríkisstjórnarsáttmálinn var undirritaður.

Vissulega virðast markmiðin fjarlæg og óskandi væri að leiðin væri vörðuð skref fyrir skref. En í stað þess að kvarta höfum við ákveðið að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að auka líkurnar á að Ísland standist samkomulagið. Tilfellið er að atvinnulífið og fyrirtækin í landinu eru í lykilstöðu til að sýna gott fordæmi og stuðla að brýnum breytingum í átt að kolefnishlutleysi. Þá hefur sífellt meiri athygli beinst að fjármagnseigendum og fjármálageiranum sem þurfa að tryggja að fjármagn fáist í þau umbreytingarverkefni sem nauðsynleg eru.

Vinna við að uppfæra aðgerðaráætlun í loftlagsmálum til samræmis er ólokið þrátt fyrir að tæpt ár sé síðan ríkisstjórnarsáttmálinn var undirritaður.

Íslandsbanki hefur gripið til margvíslegra aðgerða vegna loftslagsáhættu og er eini íslenski bankinn sem er stofnfélagi í Net-Zero Banking Alliance, alþjóðlegu samstarfi banka sem stefna að kolefnishlutleysi í starfsemi sinni. Í samtökunum eru 119 bankar sem standa undir 40% af bankastarfsemi í heiminum og nota vettvanginn til að deila reynslu sinni og leiðum til þess að feta sig í átt að þessu sameiginlega markmiði. Með samræmdri aðferðafræði við mælingar og markmiðasetningu er hægt að auka gæðin og tryggja að aðgerðir byggi á vísindalegum grunni.

Íslandsbanki birti í síðustu viku Kolefnishlutleysisskýrslu (On the road to net-zero) þar sem farið er yfir markmið og árangur bankans á sviði loftslagsmála. Skýrslan er hluti af undirbúningi samtakanna fyrir COP27 í nóvember og sýnir að markmið um fullt kolefnishlutleysi árið 2040 er verulega krefjandi. Þar kemur meðal annars fram að ef allt gengur samkvæmt áætlun gæti fjármagnaður útblástur bankans, þ.e.a.s. kolefnisspor lánasafnsins, lækkað um 60% fyrir 2030 og um 85% fyrir árið 2040. Fyrir liggur hvaða leið verður farin varðandi til dæmis vegasamgöngur og rekstur fasteigna þar sem Ísland er í kjörstöðu, en líklegt er að orkuskipti í flugsamgöngum og fraktflutningum á sjó taki lengri tíma vegna tækniþróunar. Við bíðum svo spennt eftir útkomu þeirrar vinnu sem hafin er í samstarfi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins og Bændasamtakanna við að setja vel skilgreindar vörður fyrir aðrar lykilatvinnugreinar í íslensku efnahagslífi.

Sífellt meiri athygli hefur beinst að fjármagnseigendum og fjármálageiranum sem þurfa að tryggja að fjármagn fáist í þau umbreytingarverkefni sem nauðsynleg eru.

Leiðin að kolefnishlutleysi árið 2040 er ekki að fullu kortlögð og verður engin gleðiganga í lystigarðinum. Hins vegar er ljóst að ef stórhuga markmið stjórnvalda eiga að nást þarf að taka hugrökk skref og tryggja víðtækt samstarf allra helstu hagaðila innanlands. Íslandsbanki hefur einsett sér að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku atvinnulífi og ætlar að styðja við viðskiptavini á þeirra vegferð í átt að minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Höfundar eru Kristján Rúnar Kristjánsson, forstöðumaður í áhættustýringu hjá Íslandsbanka, og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka.




Umræðan

Sjá meira


×