Í september 2019 hófst MOSAIC leiðangurinn svo kallaði, viðamesti rannsóknarleiðangur sögunnar um Norðuríshafið, þegar þýski ísbrjóturinn og rannsóknarskipið Pólstjarnan sigldi á norðurskautið og lét sig reka með ísnum þar í eitt ár. Hundruð vísindamanna frá tuttugu löndum tóku þátt í leiðangrinum.

Þetta var í fyrsta skipti sem þetta var gert af vetri til og nú eru fyrstu niðurstöður farnar að líta dagsins ljós. Markus Rex sótti Hringborð norðurslóða um síðustu helgi. Hann kom að skipulagi MOSAIC leiðangursins og tók þátt í honum sem sérfræðingur. Hann segir fyrstu niðurstöður bæði góðar og slæmar.

Til að mynda hafi leiðangursmenn fundið stærsta gat á ósonlaginu sem nokkru sinni hafi fundist yfir norðurskautinu í 20 kílómetra hæð yfir leiðangrinum. Þetta komi á óvart tuttugu árum eftir að notkun ósóneyðandi efna var bönnuð.

„Samt er ósonlagið ekki að lagast. Það fer versnandi á Norðurskautinu. Nú skiljum við að það er af því að niðurbrotsefni frá gasi eru enn til staðar í andrúmsloftinu og vegna víxlverkana gera loftslagsbreytingarnar þau ágengari. Það eru slæmar fréttir fyrir framtíð ósonlagsins á Norðurskautinu,“ segir Rex.
Við erum síðasta kynslóðin sem getur bjargað norðurskautinu
Þá hafi í fyrsta skipti tekist að mæla ísframleiðsluferlið að vetri til og niðurstöðurnar væru uppörvaldi.
„Við sáum að undir ísnum nær sjórinn frostmarki allt niður á 14 metra dýpi áveturna. Meira að segja núna með hnattrænni hlýnun. Það er heilbrigður grunnur fyrir nýmyndun íss á veturna og við teljum að við séum enn í stöðu til að bjarga ísnum ef við stöðvum hnattræna hlýnun. Hann bregst mjög línulega við hlýnun og ef við stöðvum hlýnunina mun bráðnun íssins stöðvast. Það er gott. Þetta setur mikla ábyrgð á herðar okkar. Við erum síðasta kynslóðin sem getur bjargað hafísnum á norðurslóðum,“ segir Markus Rex.

Einnig hafi komið á óvart að finna þorskstofn í kolniðamyrkri undir miðjum norðurskautsísnum.
„Tegund sem maður hefði ekki búist við á miðju Norðurskautinu en nú sáum við að hún lifir þarna. Mjög lítil frjósemi, örugglega ekkert sem sjávarútvegurinn getur nýtt en það er áhugavert að sjá að þessar tegundir skuli lifa þarna,“ segir Markus Rex einn leiðangursmanna MOSAIC leiðangursins.