Breiðablik greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum í dag að liðið myndi skipta úr Errea og yfir í Nike fyrir næsta keppnistímabil. Tímabilinu er lokið í kvennaflokki en þar endaði Breiðablik í þriðja sæti Bestu deildar og öðru sæti í Mjólkurbikarnum.
Karlalið félagsins er hins vegar Íslandsmeistari þó enn séu þrjár umferðir eftir af deildarkeppninni. Það verða þrír síðustu leikir liðsins í Errea áður en það færir sig yfir í Nike. Breiðablik spilaði síðast í fatnaði frá Nike árið 2009 og varð þá bikarmeistari í karlaflokki.
„Að við höfum náð samkomulagi við Nike, eitt stærsta íþróttavörumerki heimi skiptir knattspyrnudeild Breiðabliks gríðarlega miklu máli. Nú munu allir iðkendur knattspyrnudeildar klæðast þessum vönduðu vörum. Þetta eru tæplega tvö þúsund manns í heildina og verður gaman að sjá samstarfið þróast með Nike á Íslandi,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, um samninginn.
Breiðablik mætir KR í Bestu deild karla í kvöld. Það verður fyrsti leikur Blika síðan liðið varð Íslandsmeistari. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.