Ovsyannikova var í ágúst síðastliðnum ákærð fyrir að brjóta gegn nýjum og umdeildum lögum sem kveða á um allt að fimmtán ára fangelsisdóm fyrir að „dreifa falsfréttum um rússneska herinn.“
Ovsyannikova vakti heimsathygli í mars þegar hún mótmælti innrás Rússa í beinni útsendingu. Í fréttaútsendingu kom hún sér fyrir á bakvið sjónvarpsfréttaþul og hélt uppi kröfuspjaldi þar sem hún mótmælti innrásinni.
Að því er fram kemur í frétt Guardian mótmælti Ovsyannikova innrásinni líka við Kreml og í færslum á samfélagsmiðlum. Hún sagði Pútín Rússlandsforseta vera morðingja, hermenn rússneska hersins fasista og að í Úkraínu væru börn myrt.
Hún sætti stofufangelsi á meðan réttarhalda var beðið. Að sögn fyrrverandi eiginanns Ovsyannikovu lagði hún á flótta með ellefu ára dóttur þeirra en hann starfar hjá ríkisfréttamiðlinum RT.