Alexander-Arnold sat allan tímann á varamannabekknum þegar England tapaði fyrir Ítalíu í Þjóðadeildinni á föstudaginn og var ekki í leikmannahópnum í 3-3 jafnteflinu gegn Þýskalandi í fyrradag.
Hvorki fleiri né færri en fjórir hægri bakverðir voru í landsliðshópnum sem Southgate valdi síðast. Alexander-Arnold virðist neðst í goggunarröðinni af þeim. Southgate sagði meðal annars að heildarpakkinn sem Newcastle-maðurinn Kieran Trippier byði upp á væri betri en hjá Alexander-Arnold.
„Ég ræddi lengi við alla þá sem spiluðu ekki,“ sagði Southgate er hann var beðinn um að útskýra val sitt.
„Gegn Ítalíu þurftum við ekki auka mann í stöðu vinstri bakvarðar. En við þurftum þess gegn Þýskalandi vegna þess hvernig liðinu var stillt upp. Við þurftum Ben Chilwell á bekknum og við höfum Trippier sem er betri alhliða leikmaður en Alexander-Arnold á þessari stundu.“
Hnn 23 ára Alexander-Arnold hefur verið lykilmaður hjá Liverpool undanfarin ár og unnið allt sem hægt er að vinna með Rauða hernum. Honum hefur hins vegar ekki tekist að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Englands. Hann hefur leikið sautján landsleiki og skorað eitt mark.