Sport

Sturla Snær leggur skíðin á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sturla Snær Snorrason hefur ákveðið að leggja keppnisskíðin á hilluna.
Sturla Snær Snorrason hefur ákveðið að leggja keppnisskíðin á hilluna. vísir/epa

Sturla Snær Snorrason, landsliðsmaður í alpagreinum, hefur ákveðið að leggja keppnisskíðin á hilluna, 28 ára að aldri.

Sturla hefur verið meðal fremstu skíðamanna landsins undanfarin ár og fór meðal annars á tvenna Ólympíuleika, í PyeongChang í Kóreu árið 2018 og Beijing í Kína fyrr á þessu ári. Frá þessu er greint á heimasíðu Skíðasambands Íslands.

Frá árinu 2016 hefur Sturla orðið Íslandsmeistari í svigi fjórum sinnum og í stórsvigi tvisvar. Þá á hann einnig fjölmarga Íslands- og bikarmeistaratitla í unglingaflokkum.

Sturla tók þátt í fjórum heimsmeistaramótum fullorðinna frá árinu 2013, ásamt því að taka þátt á tveimur heimsmeistaramótum unglinga.

Sturla Snær náði sínum bestu FIS stigum á FIS móti í Val Palot á Ítalíu þegar hann endaði í 3.sæti og fékk 17.79 FIS stig. Hann sigraði tvö alþjóðlega FIS mót á erlendri grundu og varð hann samanlagt tíu sinnum á verðlaunapalli á slíkum mótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×