„Dyrnar standa opnar,“ sagði Andersson í morgun, en hún mun leiða starfsstjórn þar til að ný stjórn tekur við völdum. Hún hefur einnig sagst munu leiða Jafnaðarmannaflokkinn áfram, sama hvort það sé í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins, tilkynnti um afsögn sína sem formaður í morgun, en flokkurinn hlaut 6,7 prósent atkvæða í kosningunum nú, samanborið við 8,6 í kosningunum 2018. Lööf hefur stýrt flokknum frá árinu 2011.

Hægriblokkin í sænskum stjórnmálum – með þeim Moderaterna, Svíþjóðardemókrötum, Kristilegum demókrötum og Frjálslyndum –fékk samtals 176 þingmenn kjörna í þingkosningunum sem fram fóru síðastliðinn sunnudag, en vinstriblokkin – Jafnaðarmenn, Miðflokkurinn, Vinstriflokkurinn og Græningjar – 173 þingmenn.
Leiðtogar hægriflokkanna hafa hafið viðræður um myndun nýrrar stjórnar, en fastlega er búist við að Ulf Kristersson, formaður Moderaterna, muni taka við embætti forsætisráðherra, náist samkomulag um slíkt.

Nýtt þing kemur saman síðar í mánuðinum þar sem fyrsta mál á dagskrá verður að kjósa nýjan forseta þingsins. Sá mun svo eiga fundi með leiðtogum flokkanna átta, sem náðu mönnum inn á þing, og svo veita þeim sem hann telur líklegastan til að geta mynda stjórn, umboð til stjórnarmyndunar. Þingforseti mun svo tilnefna forsætisráðherra sem þingið mun taka afstöðu til. Í Svíþjóð er fyrirkomulagið að meirihluti þingmanna þarf ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra, heldur þarf einungis að umbera viðkomandi – það er meirihluti má ekki greiða atkvæði gegn komandi.
Andersson segir að hún muni sjá til þess að valdaskiptin sem framundan séu muni fara vel fram og að hún muni óska Ulf Kristersson, formanni Moderaterna, til hamingju þegar hann tekur við embætti forsætisráðherra.
„Ég er ekki með neitt persónlegt „beef“ í garð Ulf Kristersson,“ sagði Andersson í morgun.