Samkvæmt heimildum New York Times hófst undirbúningurinn að aðgerðum Úkraínumanna þegar Selenskí sagði herforingjum sínum að hann vildi sýna fram á að þeir gætu unnið stríðið og rekið Rússa á brott.
Það vildu Úkraínumenn gera fyrir haustið, áður en þrýstingur myndi aukast á ríkisstjórnir Evrópu vegna skorts á jarðgasi frá Rússlandi.
Fyrstu drög þóttu ekki góð
Fyrst drög að gagnsókninni munu eingöngu hafa snúið að Kherson og því að skera á birgðalínur Rússa til Maríupól. Sú áætlun þótti ekki líklegt til árangurs og var talið að mannfall yrði of mikið.
Á þessum tíma voru Rússar að sækja hægt og rólega fram á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu með því að beita yfirburðum sínum í stórskotaliði og var mannfall meðal Úkraínumanna mikið. Þeir leituðu því til Bandaríkjamanna og Breta til aðstoðar.
Úkraínumenn tóku eftir því að Rússar væru að senda sínar bestu sveitir til Kherson í suðri, í aðdraganda komandi sóknar Úkraínumanna þar. Þá fóru herforingjarnir að velta vöngum yfir því hvort víglínur Rússa væru viðkvæmari en þær virtust.
Í stað þess að gera eina gagnsókn, lögðu Úkraínumenn til að gera tvær. Ein yrði gerði í Kherson en ólíklegt væri að hún myndi skila miklum árangri á fyrstu vikunum. Hin sóknin yrði gerð í Kharkív. Eftir frekari greiningu voru herforingjar Úkraínu, Bandaríkjanna og Bretlands, sammála um að þessi áætlun gæti skilað góðum árangri.
Vilja reka Rússa frá Kherson
Her Úkraínu hefur staðið í kostnaðarsamri sókn gegn bestu sveitum Rússa í Kherson og á sama tíma haldið þeim sveitum þar og þvingað Rússa til að senda birgðir og liðsauka á svæðið. Það hefur þó reynst Rússum erfitt, því Úkraínumenn hafa notað HIMARS-eldflaugakerfi og aðrar leiðir til að grafa undan birgðaneti Rússa og einangra hersveitirnar á vesturbakka Dnipro-ár í Kherson.
Sókn Úkraínu í Kherson er ekki hönnuð til að vera einhvers konar tálbeita, heldur vilja Úkraínumenn reka Rússa á brott þaðan og mögulega valda gífurlegum skaða á einhverjum bestu sveitum Rússa. Sóknin í Kherson hefur líka leitt til þess að Rússar hafa frestað ætlunum sínum um innlimun héraðsins.
Fregnir hafa borist af miklu mannfalli meðal Úkraínumanna í Kherson en sókn þeirra þar hefur skilað hægum árangri.
Eigna Úkraínumönnum allan heiðurinn
Heimildarmenn NYT segja undirbúninginn hafa byggt á upplýsingum frá Bandaríkjunum og vestræn vopn hafi verið nauðsynleg. Þrátt fyri það segja þeir Selenskí og herforingja Úkraínu eiga allan heiðurinn að góðum árangri Úkraínumanna. Þeim hafi tekist að ná mjög góðum árangri í Kharkív með tiltölulega smáum herafla.