Mickey „the Mick“ Mantle er einn allra besti hafnarboltakappi sögunnar en hann spilaði alls 17 tímabil í MLB-deildinni í Bandaríkjunum. Hann lék allan sinn feril fyrir New York Yankees.
Hann var valinn sextán sinnum í stjörnulið deildarinnar og unnu Yankees alls sjö titla með Mantle í herbúðum sínum. Hann var þrisvar sinnum valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar, árin 1956, 1957 og 1962.
Hans fyrsta tímabil í deildinni var árið 1952 og seldist í dag hafnaboltaspil með mynd af Mantle frá því ári á 1,8 milljarð íslenskra króna. Spilið var í næsthæsta gæðaflokki, flokki sem kallast „Mint+9,5“ en sjaldgæft er að finna svo vel varðveitt spil sjötíu árum seinna.
Spilið var í eigu Anthony Giordano sem keypti það árið 1991 fyrir fimmtíu þúsund dollara sem þá var einnig hæsta upphæð sem einhver hafði greitt fyrir hafnaboltaspil. Hann setti spilið strax í læst geymslurými og tók það ekki út fyrr en það var sett á uppboð í dag. Um er að ræða rúmlega 250-falda ávöxtun fyrir Giordano.
„Það að þetta nýliðaspil Mantle sé enn í þessu ásigkomulagi sjötíu árum seinna er í rauninni kraftaverk,“ hefur CNN eftir Chris Ivy sem sá um uppboðið.
Spilið er ekki einungis dýrasta hafnaboltaspil sögunnar, heldur dýrasti íþróttaminjagripur sögunnar. Fyrir daginn í dag var treyja fótboltakappans Diego heitins Maradona sem hann klæddist er hann skoraði með „hendi guðs“ gegn Englendingum á heimsmeistaramótinu í fótbolta árið 1986 dýrasti minjagripurinn. Sú treyja seldist á 9,3 milljónir dollara fyrr á árinu.