Anna Palus sat framarlega í áhorfendastúkunni þegar úrslitaleikur Wimbeldon mótsins milli Kyrgios og Djokovic fór fram. Það var hún sem Kyrgios átti við þegar hann bað dómarann um að láta fjarlægja áhorfendann sem væri „búinn að drekka frá sér allt vit“ og „liti út fyrir að vera búinn með 700 drykki.
Palus hefur nú ákveðið að kæra Kyrgios fyrir meiðyrði og ásakar tenniskappann um „kærulausar og algjörlega tilhæfislausar ásakanir.“
„Það er ekki bara það að þetta hafi valdið mér ákveðnum skaða þennan dag þar sem mér var tímabundið vísað út af leikvanginum, heldur voru fölskum ásökunum Hr. Kyrgios miðlað til milljóna áhorfenda um allan heim. Af þessu hef ég, og fjölskylda mín, hlotið umtalsverðan skaða og þjáningu,“ sagði í yfirlýsingu frá Palus.
A spectator who was accused of having "about 700 drinks" by Nick Kyrgios during this year's Wimbledon final has sued the Australian tennis star for defamation. pic.twitter.com/nmV6jbk4vI
— Sky Sports News (@SkySportsNews) August 23, 2022
Ástæða þess að Kyrgios bað um að Palus yrði látin yfirgefa völlinn var sú að honum þótti hún trufla sig í hans stærsta leik á ferlinum. Kyrgios taldi að Palus væri búin að drekka of mikið og bað dómara leiksins um að láta fjarlægja hana.
„Hún er að trufla mig þegar ég er að gefa upp í úrslitaleik Wimbeldon mótsins,“ sagði Kyrgios á meðan leik stóð.
„Hún er búin að drekka frá sér allt vit þarna í fremstu röð og er að reyna að spjalla við mig í miðjum leik. Hentu henni út.“
„Ég veit hver þeirra það er. Það er þessi sem lítur út fyrir að vera búin með 700 drykki,“ sagði Kyrgios pirraður áður en Palus var að lokum hent út.