Innlent

Árásarmaðurinn handtekinn fyrr í sumar vegna hótana með skotvopn

Snorri Másson skrifar
Samfélagið er skekið á Blönduósi eftir skotárás.
Samfélagið er skekið á Blönduósi eftir skotárás. Vísir/Vilhelm

Árásarmaðurinn, sem skaut einstakling til bana á Blönduósi í morgun og lést svo sjálfur af skotsárum, hafði verið handtekinn fyrr í sumar af lögreglunni á Blönduósi. Þetta herma heimildir fréttastofu. Maðurinn hafði þá í hótunum með skotvopn og var í kjölfarið tekinn höndum. Síðar var honum sleppt.

Það er því ljóst að hann hefur áður, og nýlega, komið við sögu lögreglu. Samkvæmt heimildum fréttastofu átti árásarmaðurinn við geðrænan vanda að stríða.

Á þessu stigi er óljóst hver tengsl hans voru við fórnarlamb árásarinnar, sem átti sér stað í heimahúsi við Hlíðarbraut á Blönduósi á sjötta tímanum í morgun. Fórnarlömbin eru hjón búsett á heimilinu.

Tveir létust í skotárásinni í morgun, annar var árásarmaðurinn sem hér ræðir um, en hinn Íslendingur sem var skotinn til bana. Sá þriðji særðist og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en ekki er vitað um líðan hans.

Tveir eru í haldi lögreglu á þessu stigi en óvíst er hver aðkoma þeirra að málinu er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×