Innlent

Ung­menni létu öllum illum látum í verslunar­mið­stöð

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan lenti í vanda með hóp ungmenna í gær.
Lögreglan lenti í vanda með hóp ungmenna í gær. Vísir/Vilhelm

Í gær barst lögreglu tilkynning um hóp ungmenna sem var til vandræða í verslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Svo fór að einn úr hópnum réðst á lögreglumann.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu eftir að ungmennin höfðu haft í hótunum við öryggisverði verslunarmiðstöðvarinnar, sem er í umdæmi lögreglustöðvar þrjú í Kópavogi og Breiðholti, að því er segir í dagbók lögreglu fyrir gærkvöld og nóttina.

Lögregla mætti á vettvang og reyndi án árangurs að ræða við hópinn og þegar reynt var að vísa honum á dyr fór hann ekki fet. Þegar færa átti einn úr hópnum út úr verslunarmiðstöðinni réðst hann á lögreglumann.

Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar.

Mikið um þjófnað

Óvenju mikið var um að lögregla væri kölluð til vegna þjófnaðar í gær. Tilkynnt var um þjófnað í símafyrirtæki þar sem tveir menn voru sagðir hafa stungið vörum í vasa sína. Mennirnir skiluðu einhverjum varningi en eru grunaðir um að hafa náð einhverjum á brott með sér. Lögregla bíður eftir upptökum úr myndavélakerfi.

Þá var tvisvar í viðbót tilkynnt um þjófnað úr verslun og lögregla hafði afskipti af tveimur mönnum vegna gruns um þjófnað. Lögregla haldlagði verkfæri sem mennirnir höfðu í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×