Innlent

Gular við­varanir tóku gildi í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Í dag verða skúrir vestantil en bjart veður á Norðaustur- og Austurlandi.
Í dag verða skúrir vestantil en bjart veður á Norðaustur- og Austurlandi. Vísir/Vilhelm

Gular viðvaranir vegna hvassviðris tóku gildi í nótt á Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra og einnig á Miðhálendinu. Á Breiðafirði er spáð allt að átján metrum á sekúndu og varir ástandið fram til klukkan ellefu.

Á Ströndum er svipað veður en þar á ekki að lægja fyrr en klukkan þrjú, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Á miðhálendinu er svo enn hvassara. 

Á öllum þessum svæðum má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll og getur rokið verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk á svæðinu er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.

Í dag verða skúrir vestantil en bjart veður á Norðaustur- og Austurlandi. Það dregur úr vindi síðdegis, víða suðvestan-3-8 m/s í kvöld. Hiti verður átta til fjórtán stig en að tuttugu stigum um Norðausturland. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á morgun: Norðlæg átt 3-10 og sums staðar smáskúrir, en rigning suðaustan- og austanlands annað kvöld. Hiti 6 til 15 stig, mildast sunnan heiða.

Á föstudag:

Norðlæg átt, 3-10 m/s. Dálítil rigning með köflum á austanverðu landinu, en skýjað og úrkomulítið vestantil. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag:

Norðvestan 5-10 og allvíða skúrir, en rigning um tíma norðaustanlands. Hiti 6 til 13 stig yfir daginn, mildast sunnan heiða.

Á sunnudag:

Vestlæg átt og rigning norðaustantil á landinu, annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti frá 5 stigum við norðausturströndina, upp í 15 stig á Suðausturlandi.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna) og þriðjudag:

Norðan- og norðvestanátt með vætu norðantil, en þurrt syðra. Hiti 5 til 13 stig, mildast syðst.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×