Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers, hefur verið kosinn mikilvægasti leikmaður NFL-deildarinnar undanfarin tvö tímabil. Rodgers varð sá fyrsti til að fá þessi verðlaun tvö ár í röð síðan að Peyton Manning var kosinn bæði 2008 og 2009.
Það styttist óðum í nýtt tímabil og Rodgers mætti í æfingabúðirnar hjá Green Bay Packers liðinu í gær. Klæðaburður hans vakti mikla athygli þótt að hann hafi verið eins einfaldur og þeir gerast.
Ástæðan var að hann var klæddur alveg eins og Cameron Poe, persónan sem Nicolas Cage lék í kvikmyndinni vinsælu Con Air sem var frumsýnd árið 1997.
Það þarf heldur ekki að spyrja að því að vefmiðlarnir og samfélagsmiðlarnir voru fljótir að kveikja á perunni.
Það er pressa á Aaron Rodgers á þessu tímabili. Hann tryggði sér nýjan risasamning í sumar en missti á móti sinn besta útherja þegar Davante Adams samdi við Las Vegas Raiders.
Samvinna Rodgers og Adams hefur verið frábær en nú velta menn því fyrir sér hver verði uppáhalds viðtakandi sendinga Aarons á komandi leiktíð.