Fjölmörg íslensk félög sendu lið á mótið sem er haldið í fyrsta sinn frá árinu 2019 vegna kórónuveirufaraldursins. Breiðablik, FH, Fjölnir, Fylkir, Grótta, HK, ÍBV, KA, Keflavík, KR, Leiknir R., Njarðvík, Stjarnan og Víkingur R. sendu öll lið til að keppa í aldurflokknum 13 til 16 ára í bæði karla- og kvennaflokki.
Alls fóru yfir 1.200 íslenskir leikmenn, þjálfarar og fararstjórar á mótið og gert er ráð fyrir að yfir 2.000 Íslendingar hafi mætt á mótið ef foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir eru taldir með. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er á meðal þeirra sem lét sjá sig á mótinu en sonur hans er á meðal keppenda.
Íslensku liðin eru þó ekki aðeins mætt til að taka þátt. Einar Guðnason, fyrrum yfirþjálfari yngri flokka hjá Víkingi, bendir á það á Twitter-síðu sinni að Víkingur og Stjarnan muni eigast við úrslitaleik U16 móts karla í Gautaborg. Liðin eru því best í þessum flokki af þeim 167 liðum sem skráð voru til leiks.
Stjarnan fagnaði sigri á mótinu í flokknum síðast þegar það var haldið, en þá voru núverandi meistaraflokksleikmenn á vvið Adolf Daða Birgisson, Ísak Andra Sigurgeirsson og Eggert Aron Guðmundsson allir í liðinu.
Af 167 liðum í 16 ára liðum drengja á Gothiacup eru Víkingur og Stjarnan að fara að spila úrslitaleikinn
— Einar Guðnason (@EinarGudna) July 23, 2022
Stjarnan getur því varið titil sinn þegar liðin mætast klukkan 19:00 í kvöld en hvernig sem fer er ljóst að íslenskt lið mun taka bikarinn heim að móti loknu.