Innlent

Össur vill kalla Krist­rúnu til for­ystu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kristrún Frostadóttir á þingfundi á Alþingi. 
Kristrún Frostadóttir á þingfundi á Alþingi.  Vísir/Vilhelm

Össur Skarphéðinsson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, kallar eftir því í færslu á Facebook að Samfylkingin geri Kristrúnu Frostadóttur að formanni sínum. Hann segir Kristrúnu vera einu manneskjuna sem andstæðingar flokksins vilji ekki sem formann.

„Hvenær ætlar Samfylkingin að kalla þessa efnilegustu konu íslenskra stjórnmála til forystu?“ skrifar Össur og kallar Kristrúnu hnífskarpan greinanda með pólitíska framtíðarsýn sem hafi sárlega skort hjá flokknum síðustu ár. Fylgið sé nú í samræmi við það.

Össur beinir jafnframt spjótum sínum að sitjandi formanni Samfylkingarinnar, Loga Einarssonar.

„Hvenær ætlar Logi formaður að láta nótt sem nemur og lýsa stuðningi við að Kristrún Frostadóttir verði leiðtogi flokksins sem fyrir 20 árum var helmingi stærri en Sjálfstæðisflokkurinn er í dag?“

Trú Össurar er að geta Kristrúnar muni lyfta Samfylkingunni aftur í oddastöðu í íslenskum stjórnmálum.

„Spyrjið andstæðingana - eina manneskjan sem þeir vilja ekki sem formann er Kristrún,“ skrifar hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×