Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flokknum. Flokkurinn boðar sömuleiðis til blaðamannafundar í Grósku klukkan 11:00 þar sem oddvitar flokkanna eru tilbúnir til að svara spurningum fjölmiðla.
Þetta eru fyrstu formlegu viðræðurnar sem boðað hefur verið til í borginni eftir að niðurstöður sveitarstjórnarkosninga lágu fyrir fyrir rúmri viku síðan. Framsóknarflokkurinn hefur verið í lykilstöðu og vangaveltur verið uppi um það hvort flokkurinn færi í meirihlutaviðræður við Samfylkingu, Viðreisn og Pírata sem lýstu því yfir í liðinni viku að ætla að halda saman fyrst um sinn í viðræðum, eða við Sjálfstæðisflokkinn og aðra flokka sem til þyrftu til að mynda meirihluta þar.
Framsóknarfólk í borginni ræddi stöðu mála á fundi í gærkvöldi og hefur grasrót flokksins í Reykjavík kallað eftir því að skýlaus krafa verði um borgarstjórastólinn allt næsta kjörtímabil fari flokkurinn í formlegar viðræður við Samfylkinguna, Viðreisn og Pírata.
Einar Þorsteinsson oddviti flokksins í borginni sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að honum þyki ekki skynsamlegt að setja fram afarkosti áður en viðræður hefjast.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.