Innlent

Ó­lík­legt að skýrsla um Ís­lands­banka­sölu verði til­búin fyrir þing­lok

Smári Jökull Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði ekki tilbúin fyrr en Alþingi er komið í sumarfrí. Stofnunin á að leggja mat á hvort salan hafi samrýmst lögum og stjórnsýsluháttum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, óskaði eftir því þann 7.apríl að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar þann 8.apríl, þar sem tilkynnt var að stofnunin myndi verða við beiðni ráðherra um úttekt, var sagt að niðurstöður úttektarinnar yrði birtar í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er nú gert ráð fyrir að niðurstöður úttektarinnar verði kynntar í lok júnímánaðar. Ef starfsáætlun Alþingis er skoðuð sést að starfslok þingsins eru áætluð þann 10.júní en starfslok frestast þó oft miðað við útgefna áætlun.

Ef Alþingi hefur lokið störfum þegar niðurstöður úttektarinnar verða birtar er talið líklegt að óskað verði eftir að þing komi saman til að ræða niðurstöðurnar úttektarinnar.

Í umræðum á Alþingi þann 7.apríl kom fram að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, vildi ganga skrefinu lengra en fjármála- og efnahagsráðherra og að komið yrði á fót óháðri og sjálfstæðri rannsóknarnefnd á vegum þingsins sem færi ofan í saumana á málinu.

Stjórnarþingmennirnir Óli Björn Kárason og Orri Páll Jóhannsson tóku undir þau orð og sögðu sjálfsagt að slík nefnd yrði sett á fót ef þingheimur teldi að úttekt Ríkisendurskoðunar væri ekki nóg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×