Handbolti

Besta lið heims með of litla höll: „Yrði niðurlægjandi fyrir okkur og bæinn“

Sindri Sverrisson skrifar
Hanna Maria Yttereng og stöllur í Vipers Kristiansand gætu fyllt 5.000 manna höll að mati forráðamanna félagsins.
Hanna Maria Yttereng og stöllur í Vipers Kristiansand gætu fyllt 5.000 manna höll að mati forráðamanna félagsins. EPA/Csaba Krizsan

Evrópumeistarar Vipers Kristiansand í handbolta kvenna gætu þurft að yfirgefa Kristiansand og spila í öðrum bæ í Noregi vegna ófullnægjandi aðstöðu á heimavelli sínum.

Norski ríkisfjölmiðillinn NRK fjallar um málið og segir að þrátt fyrir að lið Vipers Kristiansand sé í allra fremstu röð í heiminum þá sé íþróttahöllin sem liðið spili í, Aquarama, langt frá því að vera í sama klassa.

Það er því ekki aðeins á Íslandi sem að menn eiga í vandræðum með að uppfylla kröfur handknattleikssambands Evrópu um húsakost. Samkvæmt NRK hafa Evrópumeistararnir verið með undanþágu til að spila Evrópuleiki í Aquarama en kröfurnar verða hertar eftir tvö ár.

Á meðal þess sem þá verður krafist er að pláss sé fyrir 4.000 sitjandi áhorfendur. Í dag er aðeins pláss fyrir um 2.000 áhorfendur í Aquarama og því gæti Vipers þurft að spila heimaleiki sína í öðrum bæ, til að mynda í Arendal þar sem verið er að endurgera Sör Amfi höllina til að uppfylla alþjóðlegar kröfur.

„Þetta yrði niðurlægjandi bæði fyrir okkur og bæinn. Þetta má bara ekki gerast,“ sagði Per Geir Lövstad, stjórnandi hjá Vipers Kristiansand, við NRK.

Léku í 12.000 manna draumahöll þjálfarans

Lövstad og félagar telja að hægt væri að selja 5.000 miða á stærstu leikina hjá Vipers og ósk þeirra er að fá höll sem rúmar þann fjölda. Það er á dagskránni að reisa nýja höll í Kristansand en sennilega eru enn nokkur ár í það, segir í frétt NRK.

Vipers er að spila í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og vann sjö marka sigur í útileiknum gegn Krim Mercator í Slóveníu. Heimaleikur Vipers er svo 7. maí.

Sigurinn í Slóveníu vann Vipers í 12.000 manna höll í Ljubljana sem notuð verður í úrslitunum á EM kvenna í desember.

„Ég væri gjarnan til í að klóna þessa höll og koma fyrir í Kristiansand. Þetta er stórkostleg aðstaða,“ sagði Ole Gustav Gjekstad, þjálfari Vipers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×