Hin 76 ára Suu Kyi hefur síðustu misserin verið ákærð fyrir fjölda brota, þeirra á meðal kosningasvindl, en dómstólar hafa réttað yfir henni í leyni, að því er segir í frétt BBC.
Suu Kyi hefur neitað ásökunum og hafa mannréttindasamtök fordæmt réttarhöldin og sagt þau vera sviðsett.
Dómstóll sakfelldi hana í morgun af ákæru um að hafa þegið jafnvirði 600 þúsund dala mútugreiðslu í formi reiðufés og gullstanga frá fyrrverandi leiðtoga Yangoon, stærstu borgar landsins. Hlaut hún fimm ára fangelsisdóm fyrir.
Suu Kiy hefur á síðustu mánuðum samtals verið dæmd í samtals ellefu ára fangelsi fyrir ýmis brot, meðal annars kosningasvindl og brot á reglum um samkomutakmarkanir vegna Covid.
Frekari réttarhöld bíða Suu Kyi, en enn á eftir að taka fyrir tíu ákæruliði gegn henni. Gæti hún átt yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi vegna hvers og eins þeirra, verði hún fundin sek.