Ísak var valinn leikmaður 1. umferðar í Stúkunni á Stöð 2 Sport en hann skoraði tvö fyrstu mörk Blika í 4-1 sigrinum gegn Keflavík á þriðjudagskvöld. Þetta var fyrsti deildarleikur Ísaks fyrir Breiðablik en hann kom til félagsins frá ÍA í vetur.
Í gær sýndi Ísak svo myndir af sér frá því í fyrsta deildarleik í fyrra, með ÍA, og í leiknum á þriðjudag og virtist hlátur í hug yfir muninum á sér.
Fyrsti í pepsi 21 vs fyrsti í bestu 22 pic.twitter.com/KdTBJ32uCM
— Ísak Snær Þorvaldson (@isaks10) April 21, 2022
Ísak er tvítugur og var á mála hjá Norwich í Englandi áður en hann kom til Breiðabliks í vetur. Hann var lánaður til ÍA sumarið 2020 og áfram í fyrra.
Ísak tjáði sig í vetur um það að hann hefði einfaldlega ekki verið í góðu formi við upphaf síðustu leiktíðar. Hann átti hins vegar sinn þátt í að halda ÍA í efstu deild og var svo fenginn til Breiðabliks sem bauð honum þriggja ára samning.
„Þegar ég samdi upp á Skaga sumarið 2020 þá var ég fyrst og fremst að hugsa um það að spila fótbolta og koma mér í leikform. Þegar tímabilið 2021 hófst þá var ég bara of feitur svo við segjum það bara eins og það er,“ sagði Ísak í viðtali við Morgunblaðið í janúar og bætti við:
„Ég var þungur á mér en ég tók ekki eftir því sjálfur. Ég reif mig loksins í gang þegar fólk fór að nefna þetta sérstaklega við mig og ég missti einhver fjögur kíló á tveimur vikum.“
Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hófst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.