Mikael Anderson var í byrjunarliði AGF og lék allan leikinn á miðjunni, en Atli Barkarson var ónotaður varamaður í liði SønderjyskE. Jón Dagur Þorsteinsson var ekki í leikmannahóp AGF vegna meiðsla.
Heimamenn í SønderjyskE tóku forystuna rétt rúmum tveimur mínútum fyrir hálfleik, en gestirnir náðu að jafna áður flautað var til hálfleiks og staðan því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Heimamenn héldu svo að þeir hefðu tekið forystuna á ný snemma í síðari hálfleik, en markið dæmt af vegna rangstöðu.
Það var ekki fyrr en á fimmtu mínútu uppbótartíma að sigurmarkið leit dagsins ljós, en þar var að verki Nicolaj Thomsen þegar hann tryggði SønderjyskE 2-1 sigur.
SønderjyskE situr enn í neðsta sæti deildarinnar með 17 stig þegar einn leikur er eftir, en liðið á enn möguleika á að lyfta sér upp af botninum í lokaumferðinni. AGF situr um miðjan neðri hlutann og siglir lygnan sjó fyrir lokaumferðina.