Í samtali við Morgunblaðið segist hún hafa komið þessum sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins.
Lilja segir það hafa verið ljóst í sínum huga að nauðsynlegt væri að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka en að vanda þyrfti til verka, í ljósi hrunsins. Að hennar mati hefði ekki átt að einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda bankans. Önnur leið hafi hinsvegar verið farin og segist hún ekki hissa á gagnrýninni sem sú leið hefur hlotið síðustu daga.
„Miðað við aðstæður og umræðuna nú tel ég að hægja verði á einkavæðingunni. Í mínum huga er líka alveg ljóst að Landsbankinn skuli vera áfram í eigu þjóðarinnar. Sala á honum kemur ekki til greina,“ segir Lilja.
Lilja segir einnig í samtali við blaðið að ábyrgðinni sé ekki hægt að skella alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar; ábyrgðin hljóti að liggja hjá þeim stjórnmálamönnum sem tóku ákvörðun í málinu.