KA/Þór fer upp í annað sæti Olís-deildar kvenna með öruggum 15 marka sigri á lánlausu liði Aftureldingar, 36-21. KA/Þór er nú með einu stigi meira en Valur eftir að Valur tapaði gegn Fram. KA/Þór og Valur mætast innbyrðis í næstu og síðustu umferð deildarinnar og mun það verða úrslitaleikur um hvort liðið fer beint í undanúrslit úrslitakeppninnar.
Aldís Ásta Heimisdóttir, leikmaður KA/Þór var markahæst með 10 mörk úr 11 skotum. Susan Ines Gamboa og Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir voru markahæstar hjá Aftureldingu, báðar með 4 mörk.
Næsti leikur KA/Þór í lokaumferðinni er gegn Val eins og nefnt er að ofan á meðan Afturelding fær HK í heimsókn
Stjarnan vann HK í Kórnum í Kópavogi með fimm mörkum, 19-24. Stjarnan á því enn þá möguleika á fimmta sætinu sem myndi forða þeim frá því að mæta Val eða KA/Þór í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Haukar eru í fimmta sætinu sem stendur en Haukar og Stjarnan mætast í lokaumferðinni í Garðabæ í úrslitaleik um fimmta sætið.
Elísabet Gunnarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, var markahæst í leiknum en hún skoraði úr öllum sex skotum sínum. Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir skoraði flest mörk í liði HK en Valgerður skoraði 5 mörk úr 10 skotum.