Fyrirkomulag útboðsins, svokallað tilboðsfyrirkomulag, hefur verið gagnrýnt, ekki síst eftir að listi yfir þá sem fengu tækifæri til að taka þátt í útboðinu var birtur.
Alls var 22,5 prósent af heildarhlutafé bankans selt fyrir tæpa 53 milljarða króna. Mikil eftirspurn var eftir hlutum í bankanum í útboðinu en alls buðu 430 fjárfestar í 50 milljón hluti þar sem verð á hverjum hlut var 117 krónur eða fjórum prósentum lægra en þáverandi markaðsgengi.
Lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir og fjölmargir þekktir aðilar úr fjármálaheiminum innanlands voru á meðal kaupenda, þar á meðal faðir Bjarna, fjárfestirinn Benedikt Sveinsson.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi útboðið harðlega á Alþingi í dag og þar boðaði Bjarni að Ríkisendurskoðun yrði fengin til að fara yfir framkvæmd útboðsins.
Á að leggja mat á hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Bjarni hafi í dag sent beiðni um úttekt á málinu til Ríkisendurskoðunar.
„Þann 22. mars sl. fór fram útboð og sala á 22,5% hlut í Íslandsbanka. Umræða hefur skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda semborið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Þess er hér með farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún kanni og leggi mat á hvort framangreind sala hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum,“ segir í bréfinu sem Bjarni undirritar.
Stjórnarandstaðan vill reyndar ganga skrefinu lengra og stofna sérstaka rannsóknarnefnd þingsins til þess að fara ofan í saumana á útboðinu. Sú hugmynd fékk ágætan hljómgrunn á þingi í dag, meðal annars frá þingmönnum stjórnarflokkanna þriggja.