Æfing þessi átti að taka tvo daga. Fyrsta bilunin kom upp á sunnudaginn og svo þegar eldsneytistankar fyrsta stigs SLS voru hálffullir í gær, kom upp bilun og var æfingunni því hætt í bili. Eldsneytinu var dælt aftur úr tönkum eldflaugarinnar.
AP fréttaveitan segir að æfingunni verði frestað þar til um helgina, í fyrsta lagi.
Sjá einnig: Nýja tunglflaugin loks komin á skotpall
Æfingin var fyrir geimskotið sem kallast Artemis-1. Hún hófst á föstudaginn en ítrekað þurfti að stöðva hana tímabundið, þar til ákveðið var í gærkvöldi að hætta við hana.
Til stendur að enda ómannað Orion-geimfar hring í kringum tunglið og til baka. Artemis-áætlunin sjálf gengur út á að koma mönnum aftur til tunglsins á þessum áratug. Árið 2024 stendur til að senda menn hring um tunglið og svo eiga aðrir að lenda þar árið 2025.
Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.
Þróun og framleiðsla SLS, sem verður öflugasta eldflaug heimsins, hefur tekið mun lengri tíma en upprunalega stóð til. Fyrst átti að skjóta eldflaug á loft árið 2016. Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og Boeing hafa þó frestað því ítrekað í gegnum árin.
Einn af yfirmönnum NASA sagði í kvöld að æfingunni yrði ekki haldið áfram fyrr en eftir að SpaceX skýtur fjórum ferðamönnum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á föstudaginn.