Frá þessu er greint á vef Fótbolti.net. Samkvæmt heimildum miðilsins er Sogndal að vinna í því að fá hinn 23 ára gamla Jónatan Inga í sínar raðir. Vængmaðurinn skemmtilegi hefur leikið með FH undanfarin ár eftir að hafa verið á mála hjá AZ Alkmaar í Hollandi frá 2015 til 2018.
Ekki er langt síðan Sogndal var orðað við Jason Daða Svanþórsson, leikmann Breiðabliks, en hann og Jónatan Ingi eru nokkuð svipaðir á velli.
Fari svo að Jónatan Ingi gangi í raðir Sogndal yrði hann þriðji Íslendingurinn á launaskrá þess en Valdimar Þór Ingimundarson gekk einnig í raðir þess nýverið. Hann lék áður með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni.
Jónatan Ingi á að baki 89 leiki í deild, bikar og Evrópu fyrir FH. Þá lék hann alls 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands á sínum tíma.