Í yfirlitsræðu sinni á flokksþinginu síðastliðinn laugardag fór Sigurður Ingi yfir stöðuna hér á landi og í heimsmálum, þar á meðal í Úkraínu. Hann sagði samstöðu vera eina svarið við árás Rússa á Úkraínumenn og ýjaði að því að Ísland gæti komið til aðstoðar í Úkraínu að loknu stríði.
„Vonandi verður stríðið ekki of langt, það er búið að vera of langt nú þegar. Vonandi verður það ekki blóðugra en enn er orðið og vonandi tekst að stöðva þessi illvirki. Vonandi ber rússnesku þjóðinni gæfa til að losa sig við illmennin í Kreml sem eru yfir stjórn þessa merkilega lands, Rússlands,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars.
Fjallað var um ræðu ráðherrans í fjölmiðlum en í gær birti rússneska sendiráðið á Íslandi færslu á Facebook þar sem athygli var vakin á ummælunum en sendiráðið segir að um „blygðunarlaus afskipti“ af rússneskum innanríkismálum væri að ræða þar sem meðlimur ríkisstjórnar Íslands kallaði eftir leiðtogabreytingum í Rússlandi.
„Við viljum minna herra Jóhannsson á það að þeir sem hann kallar „illmennin í Kreml“ séu yfirvöld sem eru lýðræðislega kjörin af rússnesku þjóðinni, og njóti stuðnings gífurlegs meirihluta Rússa. Það er ekki á borði íslenskra ráðherra að ákveða hvenær og hvernig breytingar eru gerðar á þeim yfirvöldum,“ segir í færslunni.
Sendiráðið fer nú fram á að Sigurður Ingi biðjist formlega afsökunar á ummælum sínum. Rússneska sendiráðið hefur áður gagnrýnt ummæli sem hafa verið látin falla á íslenskri grundu um aðgerðir Rússa í Úkraínu en í síðustu viku sakaði sendiráðið íslenska fjölmiðla um að ýta undir hatur á Rússum.