Körfubolti

Ragnar: Stjarnan betri en við á öllum sviðum

Andri Már Eggertsson skrifar
Ragnar og Davíð Arnar þurftu að sætta sig við silfur að þessu sinni
Ragnar og Davíð Arnar þurftu að sætta sig við silfur að þessu sinni Vísir/Bára Dröfn

Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar, var afar svekktur með tap í bikarúrslitum gegn Stjörnunni 93-85. 

„Það fór allt úrskeiðis. Við spiluðum ömurlega vörn og lélega sókn. Nánast ótrúlegt að við höfum bara tapað með átta stigum,“ sagði Ragnar Örn afar svekktur eftir leik.

Ragnari fannst vanta meiri neista í Þór Þorlákshöfn. Liðið byrjaði annan leikhluta afar vel með tíu stiga áhlaupi en Ragnar hafði viljað fylgja því betur eftir.

„Þegar við þurftum nauðsynlega á góðu áhlaupi að halda þá klikkuðum við á góðu skoti og Stjarnan stakk hnífnum í bakið á okkur.“

Ragnar hrósaði Stjörnunni fyrir góðan spilamennsku sem Þór Þorlákshöfn átti í miklum vandræðum með.

„Þeir hitu vel í leiknum og ef þeir klikkuðu þá náðu þeir frákastinu. Stjarnan var betri en við á öllum sviðum og get ég ekki fundið einn hlut sem við gerðum betur en Stjarnan.“

Ragnar sagði að þetta væri góður skóli fyrir liðið og þarna fékk Þór Þorlákshöfn að kynnast því að lenda í öðru sæti. 

„Núna vitum við hvernig er að vera liðið sem átti að vinna. Við lærum af því og förum inn í úrslitakeppnina með fullt sjálfstraust,“ sagði Ragnar Örn Bragason að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×