Skoðun

Kjartan Magnús­son er ríkur af reynslu

Haraldur Ólafsson skrifar

Sá sem hér heldur um penna hefur verið nágranni Kjartans Magnússonar um árabil. Leiðir okkar hafa legið saman í félagsstarfi af ýmsu tagi. Í slíku starfi er áberandi að Kjartan er vel fær um að setja sig inn í flókin mál þar sem háar tölur þekja blöð, og að hann nennir því líka. Hann hefur auk þess getu til að sjá mál frá fleiri en einu sjónarhorni og vilja til að leiða þau til lykta af réttsýni og sanngirni eins og framast er unnt. Samstarf við fólk sem fylgir honum ekki í skoðunum reynist honum auðveldara en mörgum öðrum.

Oft hafa málefni hverfisins og Reykjavíkurborgar borið á góma og aldrei er komið að tómum kofum hjá Kjartani, svo vel þekkir hann til hinna ólíklegustu mála, sögu þeirra, og sjónarmiða sem þeim tengjast. Það sem mestu skiptir þó er að hann áttar sig á verkefnum líðandi stundar, hvar rekstur hefur hugsanlega farið út af sporinu og skynjar skyldur kjörinna fulltrúa í þeim efnum. Seta Kjartans í borgarstjórn verður án vafa jákvæð og til styrkingar fyrir stjórn borgarinnar, hvort sem hann verður í meiri- eða minnihluta.

Eflaust er margt gott fólk í framboði í þessum kosningum og úr mörgu að velja þegar kemur að því að fá inn nýtt blóð í borgarstjórn, en það er enginn annar eins reynslubolti og Kjartan Magnússon og tilvalið að velja hann í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú um helgina.

Höfundur er prófessor í veðurfræði.




Skoðun

Sjá meira


×