Skoðun

Kjósum Hildi (og Róbert líka)!

Kristján Bragi Þorsteinsson skrifar

Undanfarna áratugi hef ég rekið veitingastaði í borginni. Sem eigandi að veitingarekstri þekki ég tvennt betur en flestir. Gott hráefni, og nauðsyn þess að sýna ráðdeild í rekstri.

Það er nefnilega svo að enginn veitingastaður getur reitt fram ljúffengan rétt án góðs hráefnis. Að sama skapi er ómögulegt að halda sjó án þess að sýna ráðdeild og gæta þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl.

Undanfarin ár hefur rekstur borgarinnar því miður einkennst af óráðsíu og stanslausum vexti kerfis sem einungis virðist rekið kerfisins vegna. Fyrir þetta líða útsvarsgreiðendur og atvinnurekendur í borginni.

Nú eygjum við veitingamenn loksins von. Í borginni er nefnilega komið fram frábært hráefni. Ekki bara glæsilegur oddviti í persónu Hildar Björnsdóttur, heldur einnig reyndur veitingamaður að nafni Róbert Aron Magnússon.

Við veitingamenn hljótum að geta sammælst um að veita þessum tveimur öflugu fulltrúum brautargengi í borginni í vor. Fólki sem getur stöðvað óráðsíuna, tekið til í fjármálunum og bætt rekstrarskilyrði veitingamanna. Ekki er vanþörf á.

Búum til fjölbreyttan matseðil í borginni í vor. Veljum okkar besta fólk til forystu.

Höfundur hefur rekið veitingastaði í Reykjavík í þrjá áratugi.




Skoðun

Sjá meira


×