Yfirburðir Ármanns voru miklir strax frá fyrstu mínútu, en liðið hafði tíu stiga forskot að fyrsta leikhluta loknum. Ármann jók forystu sína umtalsvert fyrir hálfleikshléið, en staðan var 38-18 þegar gengið var til búningsherbergja.
Heimakonur gerðu svo endanlega út um leikinn í þriðja leikhluta þar sem þær skoruðu 28 stig gegn aðeins átta stigum Vestra. Leikmenn Ármanns gátu því leyft sér að slaka aðeins á í lokaleikhlutanum, en lokatölur urðu sem fyrr segir 80-46.
Schekinah Sandja Bimpa átti flottan leik í liði Ármanns og skoraði 26 stig, ásamt því að taka 15 fráköst og gefa fjórar stoðsendingar. Í liði Vestra var Sara Emily Newman atkvæðamest með 12 stig.
Þrátt fyrir að liðið sé búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn er sæti í efstu deild ekki í höfn. Ármann mætir liðinu sem hafnar í fjórða sæti deildarinnar í úrslitakeppni um sæti í Subway-deild kvenna á næsta tímabili.