Handbolti

Snorri Steinn: Svakalega glaður og stoltur af liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson hvetur sína menn áfram.
Snorri Steinn Guðjónsson hvetur sína menn áfram. vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður eftir sigurinn á KA, 36-32, í úrslitaleik Coca Cola bikar karla í handbolta í dag. Þetta var fjórði stóri titilinn sem Valur vinnur undir stjórn Snorra og sá þriðji á síðustu níu mánuðum. Þeir hafa allir unnist á Ásvöllum.

„Þetta er nú bara tilviljun að þetta sé hér á Ásvöllum en er fínt. En við skulum passa okkur að tala ekki um þetta sem sjálfsagt mál. Það er gríðarlega erfitt að vinna alla titla og þessi var svo sannarlega erfiður,“ sagði Snorri við Vísi eftir leik. „Ég er alveg svakalega glaður og stoltur af liðinu, hvernig við höndluðum þetta.“

Leikurinn var mjög jafn allan tímann og það var ekki fyrr en undir lokin sem Valsmenn sigu fram úr.

„Það er kannski erfitt fyrir mig að segja núna, svona rétt eftir leik,“ sagði Snorri, aðspurður hvað hefði skilið á milli í dag.

„Þetta var leikur sóknanna eins og tölurnar gefa til kynna. Ég var ekki ánægður með okkar varnarleik sem er ekki gott þar sem hann er okkar aðall. Við fundum aldrei taktinn í vörninni en skoruðum vel og voru gríðarlega einbeittir og beittir í sókninni,“ sagði Snorri.

„Svo tók Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] 2-3 svakalega bolta undir lokin og það skildi á milli þegar uppi var staðið.“

Snorri segir styrkleikaleikamerki að Valsmenn hafi náð að klára leik þar sem þeir fundu sig ekki í vörninni.

„Jú, KA setti okkur undir mikla pressu og voru betri en við í fyrri hálfleik og framan af seinni. Við vorum lengi að snúa þessu við. En kannski á hárréttum tímapunkti náðum við yfirhöndinni og þeir þurftu að fara í sjö á sex. Við lönduðum þessu en þurftum svo sannarlega að hafa fyrir því,“ sagði Snorri að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×