Handbolti

Kristján markahæstur í fyrsta sigri Aix | Magdeburg og Kadetten unnu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Örn átti góðan leik í kvöld.
Kristján Örn átti góðan leik í kvöld. PAUC

Það voru Íslendingar í eldlínunni í þremur leikjum í Evrópudeildinni í handbolta sem nú var að ljúka. Kristján Örn Kristjánsson var markahæsti maður vallarins þegar PAUC Aix vann sinn fyrsta og eina leik í riðlakeppninni.

Fyrsti sigur Aix kom nefnilega í lokaumferð riðlakeppninnar, en Kristján skoraði sjö mörk fyrir liðið í kvöld. Kristján og félagar leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 19-16, og unnu að lokum góðan sex marka sigur gegn La Rioja, 37-31.

Aix endar í neðsta sæti C-riðils með þrjú stig, fjörum stigum minna en La Rioja sem endar sæti ofar.

Í sama riðli vann Íslendingalið Magdeburg góðan fjögurra marka sigur gegn Nexe, 28-24. Ómar Ingi Magnússon skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg, en Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað. Magdeburg hafði þegar tryggt sér sigur í riðlinum fyrir leik kvöldsins.

Að lokum tryggðu Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten sér áframhaldandi veru í Evrópudeildinni með sex marka sigri gegn Tatabanya, 32-26. Kadetten endaði í þriðja sæti D-riðils með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×