Duplantis sló heimsmetið í stangastökki í þriðja sinn á ferlinum á móti í Serbíu í gær, með því að fara yfir 6,19 metra. Hann hafði áður slegið metið í tvígang árið 2020.
Móðir Duplantis var viðstödd annað skiptið sem hann setti heimsmet en pabbi hans hefur misst af öllum þremur skiptunum.
„Svolítið sorglegt fyrir hann“
„Það er svolítið sorglegt fyrir hann en hann ætlar að vera viðstaddur á HM svo þá verð ég bara að endurtaka leikinn!“ sagði Duplantis við hið sænska Aftonbladet í gær. HM innanhúss fer einmitt einnig fram í Serbíu, eftir tíu daga.
Eftir að hafa komist yfir 6,19 metrana, sem Duplantis hafði beðið svo lengi eftir að ná, spratt hann til kærustunnar og fagnaði með kossum og faðmlögum.
„Svo þú varst bara að hoppa yfir 6,19 metra en ég er lofthrædd?“ grínaðist Inglander á Instagram-síðu sinni og birti mynd af sér með Duplantis.
„Það var fullkomið,“ sagði Duplantis í gær um að hafa getað fagnað heimsmetinu með kærustunni sinni.
„Maður vill geta fagnað með þeim sem standa manni næst. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni, það eru þau sem að styðja mann mest og maður vill svo mikið gera þau stolt. Maður vill bjóða þeim upp á sýningu og ég er svo glaður yfir að Desiré skyldi fá að sjá þetta,“ sagði Duplantis.