Körfubolti

Hamingjuríkir hveitibrauðsdagar Hardens í Philadelphiu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fólkið í Philadelphiu tók vel á móti James Harden.
Fólkið í Philadelphiu tók vel á móti James Harden. getty/Mitchell Leff

James Harden lék sinn fyrsta heimaleik fyrir Philadelphia 76ers þegar liðið vann New York Knicks, 123-108, í NBA-deildinni í nótt.

Harden skoraði 26 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar og var vel tekið af stuðningsmönnum Philadelphiu. Liðið hefur unnið fyrstu þrjá leikina sem Harden hefur spilað með því.

Joel Embiid skoraði 27 stig fyrir Philadelphiu og Tyrese Maxey 25. Liðið er í 3. sæti Austurdeildarinnar. RJ Barrett skoraði þrjátíu stig fyrir Knicks sem hefur tapað sex leikjum í röð.

Meistarar Milwaukee Bucks unnu endurkomusigur á toppliði Austurdeildarinnar, Miami Heat, 120-119. Milwaukee var fjórtán stigum undir þegar sex mínútur voru eftir af leiknum en kom til baka og vann sterkan sigur.

Giannis Antetokounmpo skoraði 28 stig og tók sautján fráköst fyrir Milwaukee. Khris Middleton skoraði 26 stig og Jrue Holiday 25 auk þess að gefa ellefu stoðsendingar. Sá síðarnefndi skoraði sigurkörfu liðsins þegar 1,9 sekúndur lifðu leiks. Tyler Herro skoraði þrjátíu stig fyrir Miami og Gabe Vincent 21.

Topplið Vesturdeildarinnar, Phoenix Suns, sigraði Portland Trail Blazers örugglega, 120-90. Cameron Johnson var stigahæstur í jöfnu liði Phoenix með tuttugu stig.

Úrslitin í nótt

  • Philadelphia 123-109 NY Knicks
  • Milwaukee 120-119 Miami
  • Phoenix 120-90 Portland
  • Cleveland 98-119 Charlotte
  • Orlando 114-122 Indiana
  • Houston 127-132 Utah
  • New Orleans 125-95 Sacramento
  • Denver 107-119 Oklahoma
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×