Sprengingar hafa heyrst bæði í Kænugarði sem og næststærstu borg landsins, Kharkív. Íbúar Kænugarðs vöknuðu upp enn á ný upp við loftvarnaflautur í nótt. Stór herdeild sem fyrst var tilkynnt um í gær færist sífellt nær Kænugarði.
Útgöngubanni var þó aflétt í höfuðborginni klukkan átta að úkraínskum tíma og verður verslunum heimilt að hafa opið auk þess að neðanjarðarlestir munu ganga. Útgöngubann mun aftur taka gildi klukkan 22 í kvöld til klukkan sjö í fyrramálið að úkraínskum tíma.
Gengi rússnesku rúblunnar lækkaði um nærri 30 prósent við opnun markaða í morgun og hefur gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal aldrei verið lægra. Þetta var í fyrsta sinn sem markaðir opnuðu eftir að Vesturveldin tilkynntu um viðskiptaþvinganir sínar gagnvart Rússum vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Það helsta sem er að gerast í Úkraínu:
- Almennir borgarar eru sagðir hafa fallið í tugatali og særst í hundruðatali eftir klasasprengjuárás á borgina Karkív.
- Seðlabanki Rússlands hefur hækkað stýrivexti í tuttugu prósent til að reyna að hægja á falli rúblunnar. Refsiaðgerðir hafa komið verulega niður á virði gjaldmiðilsins.
- Úkraínumenn segjast hafa fellt eða handsamað um 5.300 rússneska hermenn. Þeir segja ekkert um hve margir úkraínskir hermenn hafa fallið eða verið handsamaðir.
- Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að íbúar Kænugarðs geti flúið til vesturs. Rússneskir hermenn kringum borgina muni ekki ógna þeim.
- Varnarmálaráðuneyti Bretlands segir skipulagsleysi og sterka vörn Úkraínumanna hafa hægt á sókninni að Kænugarði.
- Rússneskir hermenn sitja í raun um nokkrar af stærstu borgum Úkraínu en hefur ekki tekist að hernema þær.
- Ráðamenn í Bandaríkjunum segjast búast við því að her Hvíta-Rússlands muni ganga til liðs við her Rússlands í dag eða á næstu dögum og taka þátt í innrásinni í Úkraínu.
- Ráðamenn margra vestrænna ríkja hafa heitið því að útvega Úkraínumönnum mikið af vopnum og jafnvel orrustuþotur.
- Vladimír Pútín hefur sett kjarnorkuvopnasveitir sínar í viðbragðsstöðu og yfirvöld í Hvíta-Rússlandi segja að þjóðin hafi í atkvæðagreiðslu samþykkt að fella úr gildi ákvæðir stjórnarskrár ríkisins um að banna kjarnorkuvopn þar í landi.
- Viðræður milli sendinefnda frá Rússlandi og Úkraínu fóru fram á landamærum Hvíta-Rússlands og Úkraínu í dag. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagðist fyrir fundinn tortrygginn á vilja Rússa til viðræðna.
- Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kom saman í dag á neyðarfundi vegna stöðunnar og er áætlað að fundurinn standi yfir næstu daga.
- Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur formlega sótt um aðild að Evrópusambandinu fyrir hönd Úkraínu.
- Stór rússnesk herdeild sem telur hundruð herfarartækja, þar á meðal skriðdreka, nálgast Kænugarð úr norðaustri, samkvæmt gervihnattamyndum.
- Selenskí forseti hefur ýjað að því að algjöru flugbanni yfir Úkraínu verði komið á gagnvart Rússum. Það myndi þýða að reynt yrði að skjóta niður allt það sem Rússar setja inn í lofthelgi Úkraínu; eldflaugar, flugvélar og þyrlur.
Fréttastofa mun halda áfram að fylgjast með gangi mála í Úkraínu í allan dag í vaktinni að neðan.