Í fréttatilkynningu Kalaallit Airports kemur fram að samið hafi verið við kanadíska verktakann Pennecon Heavy Civil og eiga framkvæmdir að hefjast með vorinu. Íslenska fyrirtækið Ístak var upphaflega í hópi fimm verktaka sem grænlensk stjórnvöld buðu að taka þátt í útboðinu og síðan aftur í endurteknu útboði.
Verksamningurinn við Pennecon tekur til lagningar flugbrautar, flughlaðs og akstursbrautar, en einnig bílastæða og að ljúka vegagerð milli bæjarins og flugvallarins. Stefnt er að því að smíði tvö þúsund fermetra flugstöðvar, flugturns og annarra bygginga verði boðin út sérstaklega í vor.

Nýja flugvellinum er ætlað að taka við af Narsarsuaq sem aðalflugvöllur Suður-Grænlands. Flugbrautin verður 1.500 metra löng og 30 metra breið en um tíma var rætt um að hafa brautina styttri í sparnaðarskyni. Núna er ljóst að hún verður nægilega stór til að taka við Bombardier Q400, lengri vélum Icelandair á innanlandsleiðum, sem og smærri farþegaþotum eins og Airbus A220.
Þetta verður þriðja risaverkefnið í flugvallagerð sem Grænlendingar hefja á skömmum tíma. Við bæina Nuuk og Ilulissat er unnið að gerð 2.200 metra langra flugbrauta, sem núna er áætlað að klárist árið 2024. Upphaflega áttu allir þrír vellirnir að vera tilbúnir árið 2023.
Í frétt Stöðvar 2 fyrir jól kom fram að óvæntar viðbótartekjur Grænlendinga af góðri loðnuvertíð við Ísland tryggðu fjármögnun flugvallargerðarinnar við Qaqortoq.