Þar verður nýr leikmaður kynntur til sögunnar hjá Víkingum en samkvæmt heimildum Fótbolta.net er þar um að ræða sænska varnarmanninn Oliver Ekroth.
Víkingar hafa leitað logandi ljósi að varnarmönnum í vetur enda hafa þrír varnarmenn horfið á braut í vetur eftir að hafa átt stóran þátt í góðu gengi Víkings í fyrra.
Það eru gömlu jaxlarnir Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen, sem lögðu skóna á hilluna og vinstri bakvörðurinn bráðefnilegi Atli Barkarson sem gekk til liðs við danska úrvalsdeildarliðið SönderjyskE á dögunum.
Þeir tveir fyrrnefndu léku mest í stöðu miðvarðar og er Ekroth væntanlega ætlað að fylla þeirra skarð ásamt Kyle McLagana sem fenginn var frá Fram í vetur.
Ekroth þessi er þrítugur og var fastamaður í vörn Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.